Tiger Woods: „Mér líður frábærlega“

Nú er rétt rúmur sólarhringur í að Tiger Woods snýr aftur, en á morgun hefst Hero World Challenge mótið. Fréttir undanfarna daga hafa einkennst af fréttum af honum og er kannski ekki að furða þar sem 10 mánuðir eru síðan Woods keppti síðast.

Woods sat fyrir svörum í gær og var ýmislegt áhugavert sem kom fram á blaðamannafundinum. Meðal annars sagði Woods að hann trúir því ekki hversu slæmt bakið var orðið í miðað við hvernig það væri í dag. 

„Mér líður frábærlega. Ég áttaði mig ekki á því hversu slæmt bakið á mér væri. Nú þegar mér líður vel, þá er erfitt að hugsa til þess að ég var eins og ég var. Fóturinn á mér virkaði ekki og ég gat ekki sofið vegna verkja. Eftir að bakið fór að lagast þá hef ég getað sofið betur, fóturinn á mér er í góðu lagi, þannig ég er ángæður með lífið þessa dagana.“

Hann sagði einnig að síðasta aðgerðin hafi verið framkvæmt til þess að reyna að bæta lífsgæðin, sem voru orðin frekar slæm.

„Ég fór í aðgerðina til þess að bæta lífsgæðin hjá mér. Ég hef verið rúmliggjandi í næstum tvö ár og ég hef ekki getað gert mikið. Fólk spurði mig af hverju ég færi ekki út að borða. Ég gat það ekki, ég gat ekki setið. Fyrir mig að geta farið út að nýju og gert hluti, verið með krökkunum mínum í íþróttum. Ég hef saknað þess.“