Tiger verkjalaus á æfingahring fyrir Hero World Challenge

Tiger Woods mun snúa aftur til keppni eftir nokkurra mánaða hlé nú í vikuni, þegar hann tekur þátt í Hero World Challenge mótinu. Tiger keppti síðast í febrúar, en dró sig úr keppni vegna verkja í baki. Hann gekkst svo undir aðgerð á baki í apríl síðastliðnum og hefur verið í endurhæfingu síðan.

Í dag lék hann æfingahring fyrir mótið og var verkjalaus, en bakverkir höfðu áður þjáð Tiger í mörg ár.

„Ég er dálítið hissa. Sú staðreynd að ég er verkjalaus í neðra bakinu, miðað við það sem ég hef þurft að lifa við í mörg ár, það er bara ótrúlegt.“

Tiger hefur undanfarna mánuði unnið sig í gegnum pokann hægt og rólega. Hann fékk fyrst grænt ljós frá lækni til að byrja að pútta og vann sig svo upp í að geta slegið full dræver högg. Þrátt fyrir góðan bata er Tiger ekki viss um hvernig gengi hans verður á næstunni.

„Þetta gæti verið næsta skref, en ég veit það bara ekki og það er erfitt að lifa með því. Þetta hefur verið barátta í mörg ár. Að vera loksins búinn að vinna sig upp úr þessu er spennandi. Ég er stífari, en ég er verkjalaus og ef ég er verkjalaus þá er lífið svo miklu betra.“