Tiger talaði ekki við kylfubera sinn eftir að hafa tapað í körfubolta

Flestir afreksmenn í íþróttum er yfirleitt með mikið keppnisskap og eiga oft á tíðum erfitt með að tapa, sama hvort það sé íþróttinni þeirra eða bara hverslags keppni sem er. Joe LaCava, kylfuberi Tiger Woods, fékk að kynnast keppnisskapinu í Woods þegar þeir spiluðu körfubolta saman.

LaCava sagði í útvarpsviðtali á dögunum að hann og Woods hefðu verið að spila körfubolta á móti hvor öðrum. Það endaði ekki betur en svo að LaCava vann níu leiki í röð og var Woods ekki alveg nógu sáttur við það.

Samkvæmt LaCava talaði Woods ekki við hann það sem eftir lifði dags og því ljóst að Woods er ekki mikið fyrir það að tapa, hvort sem það er í golfi eða í einhverju öðru.