Tiger-Phil tölfræði sem vekur spennu

Ef það fór fram hjá einhverjum, þá endaði Woods jafn í öðru sæti um helgina á Valspar Championship mótinu. Hann var í góðri stöðu til þess að vinna, en Paul Casey spilaði besta allra á lokadeginum og stóð uppi sem sigurvegari.

Eftir mótið var strax farið að tala um Arnold Palmer Invitational mótið sem hefst á fimmtudaginn. Woods verður á meðal þátttakenda og til gamans má geta að hann hefur unnið þetta mót átta sinnum.

Ef Woods tekst að sigra á sunnudaginn verða 1687 dagar frá því að hann stóð uppi sem sigurvegari síðast. Þessi tölfræði er svo sem ekkert merkilega nema fyrir þær sakir að Phil Mickelson, sem sigraði á sínu fyrsta móti fyrir rúmri viku, var ekki búinn að vinna mót í 1687 daga þegar að hann vann.

Woods þarf fyrst að vinna, en takist honum að sigra þá er þetta eflaust ótrúlegasta tölfræði sem hefur komið í langan tíma.