Þrír risameistarar saman í holli í Suður-Afríku

Evrópumótaröð karla í golfi fór aftur af stað í morgun þegar BMW SA Open mótið hófst í Suður-Afríku. Nokkrir sterkir kylfingar eru skráðir til leiks að þessu sinni en eitt holl vekur líklega meiri athygli en önnur.

Risameistararnir Ernie Els, Trevor Immelman og Mike Weir eru saman í holli og fóru þeir út klukkan 7:10 að staðartíma.

Els hefur sigrað á fjórum risamótum á sínum frábæra ferli. Síðasti sigur hans á risamóti kom árið 2012 á Opna mótinu en sá fyrsti kom árið 1994 á Opna bandaríska. Í dag er Els í 597. sæti heimslistans en til gamans má geta að Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson eru báðir fyrir ofan hann.

Mike Weir og Trevor Immelman sigruðu báðir á Masters risamótinu. Weir sigraði árið 2003 en Immelman árið 2008.

Hér verður hægt að fylgjast með BMW SA Open í beinni.


Ernie Els fagnar hér í annað sinn á Opna mótinu árið 2012.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is