Þrír léku á 68 höggum á Haustmótaröð GS

Annað haustmót ársins hjá Golfklúbbi Suðurnesja fór fram um helgina á Hólmsvelli í Leiru. Þrír kylfingar léku á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari og þá náðu átta kylfingar að lækka sig við fínar aðstæður.

Aron Snær Júlíusson, GKG, Dagur Ebenezersson, GM, og Kristján Þór Einarsson, GM, léku allir á 68 höggum. Formúlan var svipuð hjá þeim öllum en Aron og Kristján fengu báðir 7 fugla á meðan Dagur fékk 6 stykki. Umræddir kylfingar enduðu efstir í höggleiknum en Aron Snær lék besta golfið á seinni níu (-4).

Dagur varð einnig efstur í punktakeppninni en hann fékk 41 punkt þar sem hann var með 1 í vallarforgjöf. Þorvaldur Freyr Friðriksson, GR, endaði annar með 40 punkta og þrír kylfingar enduðu jafnir í 3. sæti með 38 punkta.


Skorkort Dags í mótinu.

Úrslit mótsins má sjá með því að smella hér.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is