Þrír eiga möguleika á stigameistaratitlinum

Þegar eitt mót er eftir á Evrópumótaröð karla í golfi á tímabilinu geta þrír einstaklingar staðið uppi sem sigurvegarar á stigalistanum. Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Tommy Fleetwood, Justin Rose og Sergio Garcia.

Fleetwood hefur þénað 4,2 milljónir evra á tímabilinu og hafði í raun verið í algjörum sérflokki á mótaröðinni þar til Justin Rose sigraði á tveimur mótum í röð, HSBC heimsmótinu og Turkish Airlines mótinu sem fóru fram fyrir nokkrum vikum. Rose hefur nú þénað 3,9 milljónir evra og þykir líklegur til afreka í lokamótinu.

Masters sigurvegarinn Sergio Garcia hefur sigrað á þremur mótum á tímabilinu og er í þriðja sæti stigalistans með 3,1 milljónir evra. Mikið þarf að gerast á lokamótinu til þess að hann nái að stela stigameistaratitlinum.

Justin Rose hefur áður orðið stigameistari á Evrópumótaröðinni en þá sigraði hann einmitt á lokamótinu og stal titlinum af Ernie Els. Það var árið 2007 þegar lokamótið fór fram á Valderrama. Fleetwood og Garcia hafa hins vegar ekki orðið stigameistarar. 


Reynslumiklir: Justin Rose og Sergio Garcia fylgja fast á hæla Tommy Fleetwood.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is