Þriðji risatitill Koepka kom á PGA meistaramótinu

Bandaríkjamaðurinn  Brooks Koepka sigraði í dag á PGA meistaramótinu sem fór fram á Bellerive vellinum í Bandaríkjunum. Koepka spilaði hringina fjóra á 16 höggum undir pari og sigraði að lokum með tveggja högga mun.

Koepka, sem sigraði á Opna bandaríska mótinu fyrr á þessu ári, hóf daginn með tveggja högga forystu og spilaði öruggt og yfirvegað golf á lokahringnum.

Koepka hefur nú sigrað á þremur risamótum sem verður að teljast magnaður árangur. Fyrsti risatitillinn hans kom á Opna bandaríska mótinu í fyrra og því hefur hann sigrað á þremur risamótum á 13 mánuðum.

Tiger Woods átti besta hring dagsins ásamt tveimur öðrum en hann kom inn á 64 höggum og var ekki langt frá því að bæta við sínum 15. risatitli. Woods varð að lokum að sætta sig við annað sætið á 14 höggum undir pari en hann hefur nú endað í einu af 6 efstu sætunum í tveimur síðustu risamótum.

Adam Scott, sem lék með Koepka á lokahringnum, endaði í 3. sæti á 13 höggum undir pari. Tveimur höggum á eftir honum voru þeir Jon Rahm og Stewart Cink.

Sigurvegari síðasta árs, Justin Thomas, endaði í 6. sæti ásamt risameistaranum Francesco Molinari, Thomas Pieters og Gary Woodland.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is