Þórður Rafn flaug í gegnum niðurskurðinn og er á meðal efstu manna

Í gær fór annar hringur Austerlitz Classic mótsins fram, en mótið er hluti af Pro Golf mótaröðinni og er Þórður Rafn Gissurarson, atvinnumaður úr GR, á meðal þátttakenda. Þórður var fyrir daginn jafn í þriðja sæti á fimm höggum undir pari. Eftir annan hringinn færðist Þórður niður um eitt sæti, þrátt fyrir að hafa leikið á einu höggi undir pari, en er samt sem áður ekki langt á eftir efstu mönnum.

Þórður byrjaði annan hringinn mjög illa, en hann fékk tvöfaldan skolla strax á fyrstu holunni, sem er par 5 hola. Hann svarði því aftur á móti strax með tveimur fuglum á næstu fjórum holum. Skolli á níundu holu þýddi að hann lék fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari.

Það kom síðan fugl á 10. holunni, en tveir skollar fylgdu í kjölfarið á 11. og 15. holunum. Það leit því allt út fyrir að Þórður endaði hringinn á yfir pari, en Þórður var samt á öðru máli, því hann fékk þrjá fugla í röð á 16., 17. og 18. holunum. Hann kom því í hús á 71 höggi, eða einu höggi undir pari. Hann er því samtals á sex höggum undir pari og er eftir daginn jafn í fjórða sæti.

Það eru þeir Finn Fleer og Peter Valasek sem eru í forystu á níu höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu, en lokahringur mótsins fer fram í dag.