Thomas vonsvikinn að hafa ekki verið valinn í Ryder bikarinn

Justin Thomas hefur leikið frábært golf undanfarnar vikur þar sem hann hefur náð að landa tveimur sigrum á PGA mótaröðinni auk þess að vera meðal 5 efstu í öðru móti.

Í viðtali eftir sigurinn á TOC mótinu sem lauk í Hawaii um helgina tjáði hann blaðamönnum að hann myndi ekki deila með þeim markmiðum þessa árs. Hins vegar sagði hann frá sínu stærsta markmiði á síðasta ári, sem var að komast í Ryder lið Bandaríkjanna.

Það tókst ekki og var Thomas mjög vonsvikinn að missa af keppninni.

„Það var mjög sárt að komast ekki í liðið,“ sagði Thomas. „Ég átti frábæra möguleika og ef ég hefði bara leikið aðeins betur síðustu vikurnar fyrir mótið þá hefði ég gert val Davis Love mun erfiðara.

Ég hugsaði bara of mikið um Ryderinn og setti of mikla pressu á sjálfan mig. Mér leið eins og það væri meiri pressa á mér að sigra á móti því ég vildi ólmur komast í liðið. Ég elska nefnilega svona keppnir og mig langaði að vera partur af liðinu.“

Á nýútgefnum heimslista er Justin Thomas kominn upp í 12. sæti heimslistans og nokkuð ljóst að hann á mjög góða möguleika á því að spila sig inn í næstu Ryder keppni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is