Thomas hitar upp fyrir Ryder bikarinn á Evrópumótaröðinni

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas, staðfesti í dag þátttöku sína á HNA Opna franska mótinu sem fer fram á Evrópumótaröðinni dagana 28. júní - 1. júlí.

Thomas varð á dögunum efsti kylfingur heimslistans og er hann sá 21. í röðinni sem vermir það sæti frá stofnun listans árið 1986.

„Ég er mjög spenntur fyrir tækifærinu að fá að leika á Evrópumótaröðinni,“ sagði Thomas. „Fyrsta mótið mitt sem atvinnumaður var einmitt á Dunhill Links.“

Það er engin tilviljun að Thomas skuli ákveða að leika í þessu móti en Opna franska mótið fer fram á Le National golfvellinum í Frakklandi þar sem Ryder bikarinn fer einmitt fram í haust.

„Ég hlakka til að sjá völlinn og skoða hann. Vonandi fæ ég góða tilfinningu fyrir honum og get lært eitthvað um hann.“

Það stefnir í flott mót í Frakklandi en Jon Rahm og Tommy Fleetwood eru sömuleiðis skráðir til leiks. Sá síðarnefndi hefur titil að verja.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is