Þetta eru LPGA kylfingarnir sem mæta í styrktarmót Ólafíu á þriðjudaginn

Þriðjudaginn 8. ágúst nk. munu KPMG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur halda góðgerðargolfmót til styrktar Barnaspítala Hringsins á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.  Mótið er einstakt og sögulegt að því leyti að til leiks mæta a.m.k. fimm LPGA kylfingar og gefst öllum þátttakendum tækifæri að spila nokkrar holur með einum þeirra. Auk þeirra munu nokkrir aðrir af bestu kylfingum landsins einnig taka þátt í mótinu. Fjöldi þátttakenda mun takmarkast við 18 holl en um er að ræða boðsmót þar sem fyrirtæki og einstaklingar kaupa sæti í mótinu og styrkja þannig gott málefni en þátttökugjöldin renna óskipt til Barnaspítala Hringsins.

Nú er búið að tilkynna hvaða fjórir LPGA kylfingar mæta með Ólafíu til Íslands en það eru þær Sandra Gal, Gaby Lopez, Tiffany Joh og Vicky Hurst.

Gal hefur náð hvað bestum árangri á LPGA mótaröðinni hingað til en hún er sú eina sem hefur sigrað á mótaröðinni. Hún sigraði á Kia Classic mótinu árið 2011 og þá hefur hún nokkrum sinnum verið í toppbaráttunni á risamótum.

Lopez, Joh og Hurst eru allar yngri en Gal og hafa ekki náð jafn góðum árangri á mótaröð þeirra bestu. Þær eiga þó nokkra sigra á næst sterkustu mótaröð Bandaríkjanna, Symmetra túrnum.


Gaby Lopez.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is