Þetta eru hollin sem vert er að fylgjast með á Valspar

Næsta mót á PGA mótaröðinni er Valspar Championship mótið, sem leikið er í Flórída fylki í Bandaríkjunum. Mótið hefst á fimmtudag og er búið að tilkynna ráshópa fyrir fyrstu tvo hringina. 

Tiger Woods snýr aftur á völlinn eftir tveggja vikna hlé og eru samspilarar hans ekki af verri endanum. Tiger er í ráshóp með Jordan Spieth og Henrik Stenson og hefja þeir leik klukkan 12:46 að staðartíma á fimmtudag. Spieth vann á þessu móti árið 2015 og Stenson hefur á síðastliðnum þremur árum ekki endað neðar en í 11. sæti á mótinu. 

Rory McIlroy leikur svo með Justin Rose og Gary Woodland og hefja þeir leik klukkan 7:45 að staðartíma. Á síðustu sex árum hefur Rose endað fjórum sinnum á meðal 15 efstu og Woodland landaði sínum fyrsta PGA sigri þegar að hann vann þetta mót árið 2011.

Strax á eftir Rory og félögum mæta svo Sergio Garcia, Adam Scott og Matt Kuchar. Garcia er að taka þátt í mótinu í fyrsta sinn frá því árið 2013, en hann er heitur eftir að hafa lent í 7. sæti á Heimsmótinu í Mexíkó um síðustu helgi.