Það verða tveir Íslendingar á Opna mótinu í sumar

Íslendingar verða í stórum hlutverkum á Opna meistaramótinu sem fram fer á Carnoustie 19.-22. júlí n.k. Hörður Geirsson, alþjóðlegur golfdómari, verður við störf í sínu fagi á þessu risamóti en hann hefur einu sinni áður verið í hlutverki dómara á þessu risamóti.

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, verður á meðal keppenda en hann er fyrsti íslenski karlkylfingurinn sem nær að komast inn á eitt af risamótunum fjórum.

Hörður er spenntur fyrir verkefninu og þá sérstaklega þar sem að Haraldur Franklín verður á meðal keppenda.

„Já, mér var boðið að dæma á The Open í hitteðfyrra á Royal Troon. Í nóvember í fyrra var ég svo tilnefndur sem annar fulltrúa EGA í reglunefnd R&A. Auk þess að sinna hefðbundnum nefndarstörfum er það ein af ánægjulegustu „kvöðum“ sem fylgja því að vera í reglunefndinni að mælst er til þess að nefndarmenn sinni dómgæslu á The Open.

Í mótinu fylgja einn til tveir dómarar hverjum ráshópi. Kvöldið fyrir hvern leikdag fær maður tölvupóst með niðurröðun næsta dags og þá sér maður með hvaða ráshópi maður verður. Verkefnið snýst svo um að ganga með þeim ráshópi og vera tilbúinn að aðstoða. Hvenær sem er getur maður svo kallað eftir aðstoð í gegnum talstöðina, hvort sem er með því að fá annan dómara á staðinn eða beðið um að reynt sé að skoða sjónvarpsupptöku af einhverju sem hefur gerst. Að hringnum loknum þarf maður svo að skila af sér stuttri skýrslu um hringinn og þá úrskurði sem maður þurfti að kveða upp.“

Viðtalið í heild sinni má lesa á heimasíðu Golfsambands Íslands, golf.is.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is