Svona fór Axel að því að verða stigameistari á Nordic Golf mótaröðinni

Axel Bóasson varð í dag stigameistari á Nordic Golf mótaröðinni sem er mikið afrek. Margir af bestu kylfingum Norðurlandanna kepptu á mótaröðinni í ár og er þetta frábær stökkpallur fyrir þá atvinnukylfinga sem vilja komast á næsta stig.

Axel lék alls á 20 mótum á tímabilinu en fór alls ekki nógu vel af stað. Eftir fjögur mót í febrúar og mars hafði hann ekki komist í gegnum niðurskurðinn einu sinni og var útlitið ekki gott fyrir framhaldið.

Í maí fóru hlutirnir að snúast honum í vil en hann endaði í öðru sæti á Kellers Park Masters mótinu eftir að hafa endað í 4. sæti vikuna áður. Þar með var hann kominn ofarlega á stigalistann og sjálfstraustið eflaust hærra.

Það leið ekki langur tími þar til Axel náði að fagna sínum fyrsta atvinnutitli á ferlinum en sá sigur kom á SM Match mótinu sem var holukeppnismót í lok júní. Hann sigraði svo aftur á mótaröðinni í lok september á Race to Himmerland mótinu og þar með var keppnisréttur hans á Áskorendamótaröðinni staðfestur. Í millitíðinni varð hann Íslandsmeistari í höggleik og fagnaði sigri á lokamóti Eimskipsmótaraðarinnar.


Annar sigur tímabilsins kom á Twelve Championship.

Axel gat því leyft sér að leika afslappaður síðustu þrjú mótin og var nálægt því að sigra á lokamótinu, þar sem hann endaði í 2. sæti. Glæsilegur endir á frábæru tímabili  hjá Axel og verður spennandi að fylgjast með honum á næsta ári þegar hann hefur leik á Áskorendamótaröðinni.

Tímabilið er þó ekki alveg búið hjá honum því framundan er 2. stigs úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina þar sem hann freistir þess að komast á sterkustu mótaröð Evrópu.

Árangur Axels á tímabilinu:

14/02/2017 Mediter Real Estate Masters - PGA Catalunya MC 0 EUR
19/02/2017 PGA Catalunya Resort Championship MC 0 EUR
25/02/2017 SGT Winter Series Lumine Lakes Open MC 0 EUR
02/03/2017 SGT Winter Series Lumine Hills Open MC 0 EUR
03/05/2017 Bravo Tours Open - by Visit Tønder T4 2.177 EUR
10/05/2017 Kellers Park Masters 2 4.800 EUR
18/05/2017 Stora Hotellet Bryggan Fjällbacka Open T14 822 EUR
31/05/2017 Jyske Bank PGA Championship T32 760 EUR
14/06/2017 Tinderbox Charity Challenge - by The Agger Foundation MC 0 EUR
20/06/2017 Borre Open T13 750 EUR
29/06/2017 SM Match 1 8.430 EUR
06/07/2017 Lannalodge Open 2 4.974 EUR
02/08/2017 Made in Denmark Qualifier - Presented by Egekilde 4 2.360 EUR
10/08/2017 SGT Isaberg Open hosted by Patrik Sjöland T21 424 EUR
31/08/2017 Polarputki Finnish Open T12 824 EUR
07/09/2017 Willis Towers Watson Masters T7 1.373 EUR
22/09/2017 The 12 Twelve By Thisted Forsikring 1 8.000 EUR
28/09/2017 GolfUppsala Open T9 1.212  EUR                         
05/10/2017 Race to Himmerland T10 1.375 EUR
12/10/2017 SGT Tourfinal Åhus KGK ProAm T2 4.979 EUR

Ísak Jasonarson
isak@vf.is