Svaf yfir sig en er í toppbaráttunni í Indlandi

Spánverjinn Pablo Larrazabal gat þakkað starfsmanni Evrópumótaraðarinnar fyrir frábæra byrjun á Opna indverska mótinu sem hófst í dag. Larrazabal lék fyrsta hringinn á 67 höggum eða fimm höggum undir pari en ef ekki hefði verið fyrir símtal frá starfsmanninum í morgun þá hefði hann líklega ekki náð á völlinn í tæka tíð.

„Yndislegi nýi iPhone síminn minn fór aftur á spænskan tíma í nótt og ég vaknaði 38 mínútum fyrir rástímann minn,“ sagði Larrazabal eftir fyrsta hringinn. „Takk Dorothée, starfsmaður Evrópumótaraðarinnar, fyrir að hringja upp á hótelherbergi og láta mig vita að ég væri að fara spila eftir 38 mínútur á 10. teig.

Ég vaknaði, fór í 10 sekúndna sturtu, og hljóp upp í bíl sem beið eftir mér. Ég var mættur út á golfvöll 25 mínútum fyrir rástímann. Hjartað var á fullu og ég var mjög stressaður. 

Vanalega vakna ég þremur tímum fyrir rástímann minn og borða morgunmat í rólegheitum. Í morgun hélt ég að ég kæmist ekki út á völl í tæka tíð fyrir rástímann.“

Undirbúningurinn virðist ekki hafa truflað Spánverjann því hann fékk alls 9 fugla á fyrsta hringnum og er jafn í öðru sæti á 5 höggum undir pari. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is