Stricker hlaut Payne Stewart viðurkenninguna

Bandaríski kylfingurinn Steve Stricker, sem unnið hefur 12 mót á PGA-mótaröðinni, hlýtur Panye Stewart viðurkenninguna í ár en hún er veitt einum kylfingi árlega. Verðlaunin eru veitt þeim kylfingi sem þykir halda upp þeim gildum og heiðri sem Payne Stewart hafði í heiðri á sínum ferli.

„Um áranna rás þá hefur Steve Stricker fylgt ötullega þeim gildum sem Payne Stewart fylgdi. Frá því að vera atvinnumaður innan vallar yfir í að vera fullur samúðar gagnvart þeim sem hafa orðið undir í samfélaginu. Það er varla hægt að finna betri einstakling til að hreppa þessi verðlaun í ár,“ sagði Tim Fincham, framkvæmdastjóri PGA-mótaraðarinnar í ræðu sinni.

„Þetta er mikill heiður fyrir mig og eitthvað sem ég átti ekki von á. Ég er mjög heppinn að fá að hljóta þessi verðlaun. Golf skiptir mig öllu máli. Ég hef reynt að vera fyrirmynd í gegnum árin og lifa lífinu samkvæmt því - það gerði Payne svo sannarlega,“ sagði Stricker.

Byron Nelson, Jack Nicklaus, Arnold Palmer, Ben Crenshaw, Nick Price, Tom Watson, Jay Haas, Brad Faxon, Gary Player, Hal Sutton, Davis Love III, Kenny Perry, Tom Lehman og David Toms hafa einnig hlotið þessi verðlaun sem veitt eru árlega.

Payne Stewart lést í flugslysi árið 1999 á hátindi ferilsins. Hann vann 11 mót á PGA-mótaröðinni, þar af þrjú risamót. Hann var einn af vinsælustu kylfingum heims er hann lést og var jafnan prúðbúinn er hann lék golf, áhorfendum til mikillar ánægju.