Stór nöfn misstu af niðurskurðinum á Opna bandaríska

Annar hringur á Opna bandaríska meistaramótinu var leikinn á Erin Hills vellinum í Wisconsin í gær. Eftir hringinn komust þeir kylfingar áfram sem voru á einu höggi yfir pari eða lægra. Efstu þrír kylfingar heimslistans misstu allir niðurskurðinn, en þetta er í fyrsta sinn frá því að byrjað var að gefa út heimslista kylfinga (Official World Golf Ranking), árið 1986, sem það gerist.

Efsti maður heimslistans, Dustin Johnson, sem einnig átti titil að verja, átti í erfiðleikum með pútterinn á fyrsta hringnum og lék hann á þremur höggum yfir pari. Erfiðleikar hans héldu áfram í gær en hann lék hringinn á einu höggi yfir pari og fékk á honum þrjá fugla, fjóra skolla og restin pör. Hann endaði því á samtals 4 höggum yfir pari.

Rory McIlroy átti mjög erfiða byrjun á mótinu, en hann lék fyrsta hringinn á sex höggum yfir pari. Líkt og Johnson var McIlroy ekki að finna sig með pútterinn, en af 15 fuglafærum náði hann einungis að nýta eitt. McIlroy náði aðeins að rétta úr kútnum í gær, þegar hann lék á einu höggi undir pari. Á hringum fékk hann fimm fugla, fjóra skolla og restin pör, en það dugði ekki til og lauk hann leik á samtals fimm höggum yfir pari. 

Rory McIlroy missti af niðurskurðinum.

Jason Day átti enn verri byrjun en McIlroy, en hann lék fyrsta hringinn á sjö höggum yfir pari og fékk tvisvar sinnum þrefaldan skolla. Annar hringurinn var ekki heldur nógu góður og lék Day á þremur höggum yfir pari í gær. Hann lauk því leik á samtals 10 höggum undir pari og var 9 höggum frá því að ná niðurskurðinum. 

Jason Day missti einnig af niðurskurðinum.

Meðal annarra kylfinga úr topp 10 efstu sætunum á heimslistanum sem ekki náðu niðurskurðinum má nefna Henrik Stenson (+3), Alex Noren (+6) og Jon Rahm (+5). 

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.