Sprengja fannst við Hlíðavöll

Sprengja, sem talin er vera úr seinni heimsstyrjöldinni, fannst á Blikastaðanesi í námunda við Golfklúbb Mosfellsbæjar um klukkan eitt í dag.

Að sögn Dags Ebenezerssonar, starfsmanns GM, eru fjórir lögreglubílar á vettvangi auk tveggja sérsveitarbíla og sjúkrabíls. Lögregla er með leitartæki og sprengjuvélmenni.

Að sögn Dags var aðkomunni að Golfklúbbnum lokað um tíma en nú hefur aftur verið opnað og því hægt að spila golf á Hlíðavelli í dag.

Lagnir á svæðinu þar sem sprengjan fannst hafa verið endurnýjaðar á undanförnum dögum og er talið að sprengjan hafi fundist vegna þess.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is