Spieth spenntur fyrir því að spila með Tiger

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods er meðal keppenda á Valspar Championship mótinu sem hefst á fimmtudaginn á PGA mótaröðinni.

Fyrstu tvo dagana mun Woods leika í frábæru holli en með honum verða þeir Jordan Spieth og Henrik Stenson.

Spieth segist mjög spenntur fyrir næstu dögum en hann man þá tíma vel þegar Woods var enn sá besti í heimi.

„Ef þú hefðir sagt við mig fyrir fimm, sex árum að ég fengi tækifæri á að spila með besta kylfingi sögunnar í vel heppnaðri endurkomu hefði ég hoppað hæð mína.

Ég hef ekki séð mikið til hans undanfarin ár vegna meiðsla en við vonumst öll eftir því að sjá hann seint á sunnudegi í holli með okkur ungu strákunum.

Við viljum allir fá tækifæri á því að keppa við hann á sunnudegi og ég veit að hann vill það líka. Þó hann sé ekki í jafn góðu formi og árið 2000 væri það samt eitthvað sem við viljum allir upplifa,“ sagði Spieth og bætti við. „Ég verð líklega meira stressaður á morgun á fyrsta teig heldur en vanalega.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is