Snúum vörn í sókn á Landsbyggðinni

Til þess þarf sameiginlegt átak GSÍ forystunnar, PGA samtakanna og stærri golfklúbba á landinu

Er nóg að bjóða upp á afslátt?
Á nýafstöðnu golfþingi var lögð fram tillaga um lækkun félagagjalda golfklúbba til GSÍ sem eru með fáa félagsmenn. Hugmyndin var að koma til móts við golfklúbba út á landi sem vissulega eru í vandamálum með reksturinn, nýliðun er lítil og það er erfiðara en áður að sækja aur til sveitafélaganna. Vandi margra golfklúbba út á landi er hins vegar miklu meiri en svo að hann sé leystur með því einu að lækka framangreindan nefskatt. Hægt er að líkja þeim gjörningi við að lækka virðisaukaskatt á landsvæðum sem eiga undir högg að sækja, hugsunin er falleg en hún mun ekki virka, vandamálið er dýpra en svo.

Lyklarnir að góðum rekstri golfklúbba
Forsendan fyrir því að rekstur golfvallar standi undir sér byggir á tveimur lykilþáttum. Annars vegar fjölda þeirra sem borga árgjöld eða vallargjöld ásamt stuðningi sveitafélaga. Lykillinn að því að fá góðan stuðning frá sveitafélögum er öflugt barna og unglingastarf. Lykillinn að því að fá inn nýja meðlimi er að kenna þeim íþróttina, aðstoða þá við að ná tökum á henni og hjálpa þeim fyrstu skrefin. Báðir þessir lykilþættir byggja á því að til staðar sé golfkennari sem sinnir þessum þáttum. Þarna liggur hundurinn grafinn.

Dæmisaga af landsbyggðinni
Það hefur reynst illmögulegt fyrir golfklúbba á landsbyggðinni að fá til sín hæfa golfkennara þrátt fyrir mikla viðleitni. Golfklúbburinn Ós á Blönduósi hefur t.d. lagt mikið á sig við að fá til sín golfkennara. 2008 og 2009 fá þeir til sín golfkennara sem kom í örfá skipti en hann sinnti bara fullorðinskennslu. Árið 2010 dregur svo til tíðinda, PGA golfkennarinn Heiðar Davíð Bragason kom til þeirra um hvítasunnuhelgi og 30 krakkar mæta til leiks! Heiðar Davíð kom aftur um sumarið en sökum anna gat hann ekki fylgt eftir þessu verkefni. Heimamenn ákváðu að hamra járnið og auglýstu í sameiningu með Skagaströnd og Sauðárkróki eftir golfkennara. Fengu þau til sín erlendan golfkennara sem entist ekki út sumarið. Heimamenn gáfust samt ekki upp og PGA golfkennarinn Hulda Birna Baldursdóttir kom tvisvar sumarið 2013 og voru 10 krakkar hjá henni. Árið eftir kom hún þrisvar og voru 18 krakkar á námskeiðum hjá henni. Ég man eftir því að hún lýsti því þannig að einn krakkinn væri svo efnilegur, með náttúrúlega sveiflu sem ekki væri keypt út úr búð. Því miður var ekki hægt að fylgja kennslunni eftir árið á eftir. Í ár voru þau á Blönduósi svo heppin að fá til sín John Garner þrisvar sinnum, og komu 10 krakkar í kennsluna hjá honum. Framangreint hef ég eftir Jóhönnu G. Jónasdóttur sem hefur verið formaður Blönduósinga  undanfarin ár. Hún er að sinna öllu þessu starfi í sjálfboðaliðsvinnu og hún er langt í frá búin að leggja árar í bát þótt á móti blási. Svona er andinn á landsbyggðinni og við sem stöndum á bakvið golfíþróttina ber skilda til að rétta hjálparhönd. Þessi dæmisaga er ein af mörgum og maður spyr sig, ef þeir 30 krakkar sem æfðu árið 2010 á Blönduósi hefðu haldið áfram undir leiðsögn, hvernig væri staða þeirra í dag og klúbbsins?

Hvað er til ráða
Eins og að framan er getið er vandamálið bundið við þá erfiðleika að fá hæfa golfkennara út á landsbyggðina. Dæmin sanna þó það að það er lykillinn að lausninni. Horfum til dæmis til Selfoss og Dalvíkur þar sem þeir Hlynur Geir og Heiðar Davíð eru að gera frábæra hluti, golfíþróttin blómstrar þar sem aldrei fyrr. Það er kominn tími á að golfhreyfingin í heild sinni fylki sér á bakvið verkefni sem gengu út á það að finna langtímalausn á þessu vandamáli sem hefur verið viðvarandi í gegnum árin. Lausnin þarf að vera til langtíma og hún þarf að vera sjálfbær. Nú býr svo við að hér á Íslandi er starfræktur golfkennaraskóli af PGA samtökunum sem viðurkenndur er af PGA‘s of Europe, einn af ellefu skólum í Evrópu. Hann mun á næstunni bjóða upp á svokallað leiðbeinenda nám. Í samstarfi við forsvarsmenn golfklúbba á landsbyggðinni gætum við skipt landinu upp í svæði. Fundið aðila sem eru reiðubúnir að fara í fyrrgreint námskeið, forgjöf þeirra þarf ekki endilega að vera lág, aðalatriðið er að þeir hafi metnað fyrir verkefninu. Hvert svæði mun hafa PGA menntaðan kennara sem fóstrar svæðið, hann aðstoðar þessa aðila við að hefja golfkennsluna og fylgir þeim eftir fyrstu skrefin. Hugsanlega fá þessir aðilar brennandi metnað fyrir golfkennara starfinu og klára golfkennara skólann í heild sinni eða þá að þeir þjálfi upp einstaklinga sem ná góðum tökum á íþróttinni og taki við keflinu. Með þessum hætti værum við að byggja upp þekkingu í héraði, smám saman yrðu golfklúbbarnir sjálfbærir með kennsluna. Við þurfum hins vegar að átta okkur á því að þetta er langtímaverkefni sem þarf mikla athygli og þolinmæði við.

Allir á árarnar
Til þess að svona verkefni gangi upp þarf GSÍ forystan að taka það að sér, fóstra og kosta. PGA samtökin þurfa að vera tilbúin með skólann og aðlaga hann að þörfum landsbyggðarfólks og við þurfum PGA kennara til að fóstra landsvæðin. Þá þurfa stóru klúbbarnir að sinna þessu verkefni líka, þar á bæ er mikil þekking meðal PGA kennara sem gæti nýst í verkefnið. Boltinn er hjá GSÍ og ef til kemur þá erum við hjá GKG full eldmóðs og tilbúin til að leggjast á árarnar.

Agnar Már Jónsson

Framkvæmdastjóri GKG