Snedeker hættir keppni í Indónesíu

Bandaríkjamaðurinn Brandt Snedeker hætti leik eftir tvo hringi á Indonesian Masters mótinu sem fer fram á Asíutúrnum þessa dagana. Snedeker, sem var í leit að sæti á Masters mótinu á næsta ári, þarf því að treysta á góðan árangur á næsta ári ætli hann sér að vera með í fyrsta risamóti ársins.

Topp-50 á heimslistanum í lok árs öðlast keppnisrétt á Masters mótinu og var því kjörið fyrir Snedeker að mæta til Indónesíu þar sem hann var í 51. sæti. Mótið er það síðasta á árinu sem telur til heimslistans.

Snedeker er sagður hafa hætt keppni vegna mikils hita á svæðinu. Hann hafði leikið fyrsta hringinn á pari vallarins en eftir 11 holur á öðrum hringnum þurfti hann að hætta leik.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is