Slæmur endasprettur hjá Birgi Leifi á Spáni

Birgir Leifur Hafþórsson lék í dag fyrsta hringinn á Opna spænska meistaramótinu á 77 höggum eða 5 höggum yfir pari. Birgir Leifur er jafn Eddie Pepperell í 152. sæti eftir daginn og þarf á góðum hring að halda á morgun til þess að komast áfram.

Skor Birgis á hringnum gefur ekki alveg rétta mynd af spilamennsku hans því eftir 15 holur var Birgir á höggi yfir pari og um miðjan keppendahóp. Þá tók hins vegar við slæmur lokakafli sem hann lék á fjórum höggum yfir pari og niðurstaðan 77 högg.

Alls eru leiknir fjórir hringir í mótinu sem lýkur á sunnudaginn. Eftir hring morgundagsins verður skorið niður og komast þá um 70 efstu kylfingarnir áfram. Það er því verk að vinna fyrir Birgi því eins og staðan er núna þarf hann líklega að spila á 6 eða 7 höggum undir pari á öðrum hringnum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Birgir með pútt á fyrsta hringnum. Mynd: golfsupport.nl


Rétt áður en Birgir hóf leik í morgun. Mynd: golfsupport.nl

Ísak Jasonarson
isak@√f.is