Skrautlegur fyrsti hringur hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hóf í gær leik á ISPS Handa Women's Australian Open mótinu, en mótið er hluti af LPGA mótaröðinni. Ólafía lék á 74 höggum og er jöfn í 90. sæti þegar þetta er skrifað.

Hringurinn hjá Ólafíu var frekar skrautlegur. Hún byrjaði á 10. braut og fékk par á fyrstu fjórar holurnar. Þá kom einn fugl og á eftir honum fylgdu tveir skollar. Þar við sat á fyrri níu holunum og lék hún þær því á einu höggi yfir pari.

Á síðari níu holunum byrjaði Ólafía á því að fá skolla og fugl. Hún fékk svo tvo skolla til viðbótar á næstu sex holum áður en hún fékk fugl á loka holu dagsins. Líkt og fyrri níu holurnar lék Ólafía síðari níu holurnar á einu höggi yfir pari og lék því hringinn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari.

Eins og áður sagði er Ólafía jöfn í 90. sæti, en margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik. Þar á meðal er Valdís Þóra Jónsdóttir. Hún er á einu höggi yfir pari eftir átta holur þegar þetta er skrifað.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.