Amanda Guðrún bætti sig um átta högg á Duke of York

Annar hringur Duke of York mótsins fór fram í dag, en þau Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Sigurður Már Þórhallsson eru á meðal þátttakenda. Leikið er á Royal Liverpool vellinum í Englandi. Sigurður Már er jafn í 30. sæti á meðan Amanda er jöfn í 42. sæti.

Sigurður Már var jafn í fimmta sæti fyrir annan hringinn, eftir að hafa leikið á 74 höggum í gær. Hann náði sér þó ekki á strik í dag og kom í hús á 89 höggum, eða 15 höggum yfir pari. Eftir tvo hringi er hann því á samtals 17 höggum yfir pari og er hann jafn í 30. sæti.

Amanda Guðrún bætti sig um átta högg í dag, en hún kom í hús á 80 höggum, eða átta höggum yfir pari. Hún er samtals á 24 höggum yfir pari og er hún jöfn í 42. sæti. 

Lokahringurinn fer fram á morgun, en stöðuna í mótinu má sjá hér.