Si Woo Kim og Dustin Johnson byrja með látum

Players mótið, sem oft er kallað fimmta risamótið, hófst í dag og hafa um helmingur kylfinga lokið leik í dag.

Sigurvegari síðasta árs Si Woo Kim hefur lokið leik og hóf hann leik með látum. Hann kom í hús á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari, og er sem stendur jafn í 4. sæti. Hann getur með sigri um helgina orðið fyrsti kylfingurinn til að vinna mótið tvö ár í röð og hann yrði einnig aðeins sjötti kylfingurinn eftir að mótið var fært á TPC Sawgrass Stadium völlinn til að vinna mótið tvisvar.


Dustin Johnson.

Dustin Johnson, efsti maður heimslistans, á í hættu á að missa efsta sætið nú um helgina. Fjórir kylfingar eiga möguleika á að taka efsta sætið af honum, en það eru þeir Justin Rose, Jordan Spieth, Jon Rahm og Justin Thomas. Það lítur samt allt út fyrir það að Johnson hungri í að halda efsta sætinu ef marka má spilamennsku hans í dag. 

Johnson kom í hús á 66 höggum, eða 6 höggum undir pari, og er sem stendur jafn í 1. sæti, en hann þarf að enda á meðal 10 efstu til að eiga möguleika á að halda efsta sætinu. Á hringnum tapaði hann ekki höggi en fékk 6 fugla og restin pör.

Hérna má fylgjast með stöðu mótsins.