Sergio Garcia kylfingur ársins á Evrópumótaröðinni

Spánverjinn Sergio Garcia var í dag valinn kylfingur ársins á Evrópumótaröðinni eftir frábært tímabil.

Garcia sigraði á þremur mótum á mótaröðinni á árinu en hápunktur þess var klárlega í apríl þegar hann sigraði á Masters mótinu. Það var í fyrsta skiptið sem þessi frábæri kylfingur stóð uppi sem sigurvegari á risamóti en hann hafði jafnan verið talinn besti kylfingur sögunnar án risatitils.

„Þessi verðlaun eru mér mikils virði,“ sagði Garcia. „Gæði mótaraðarinnar voru mikil í ár. Tommy (Fleetwood), Justin (Rose), Tyrrell (Hatton) og Jon (Rahm) eru allir frábærir kylfingar og áttu mjög gott ár.

Vonandi náum við að halda þessu áfram þangað til við keppum í París á næsta ári,“ sagði Garcia og vitnaði þar í Ryder bikarinn.

Aðrir sem komu til greina í kjörinu á kylfingi ársins voru Englendingarnir Tommy Fleetwood og Justin Rose. Fleetwood varð stigameistari og Rose sigraði á tveimur sterkum mótum í lok tímabilsins en árangur Garcia stóð upp úr.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is