Sér ekki eftir neinu

Þrátt fyrir að hafa misst vinnu sína fyrir að hlaupa nakinn á 17. holu TPC Scottsdale segist Adam Stalmach ekki sjá eftir neinu.

Stalmach stal senunni á Pro-Am mótinu fyrir Waste Management Phoenix Open sem fór fram í síðustu viku þegar hann lét ljós sitt skína á 17. holunni.

Hann fór meðal annars ofan í eina af glompum holunnar og baðaði sig í sandinum. Myndband náðist af atvikinu, en hann var að lokum gómaður af öryggisvörðum.

Auk þess að missa vinnuna þurfti hinn 24 ára gamli Stalmach að dvelja 5 daga í fangelsi og borga 1.500 dollara sekt. Aðspurður hvort að atvikið hafi verið þess virði sagði hann: 

„Já þetta var þess virði, svo lengi sem fólk hafði gaman af var það þess virði.“

Stalmach hafði starfað sem barþjónn en verður nú að leita sér að nýrri vinnu eftir uppátækið.