Rose varði titilinn í Tyrklandi og er kominn í efsta sæti heimslistans

Englendingurinn Justin Rose sigraði í dag eftir æsispennandi lokahring á Turkish Airlines Open mótinu sem fram fór á Evrópumótaröð karla. Með sigrinum kemst Rose aftur upp í efsta sæti heimslistans þegar listinn verður uppfærður á mánudaginn.

Rose hóf daginn þremur höggum á eftir Haotong Li sem var í forystu fyrir lokadaginn. Hægt og bítandi náði Rose að vinna upp forystu Li og voru þeir orðnir jafnir eftir 15 holur. 

Þrátt fyrir skolla á 17. og 18. holu hjá Rose enduðu þeir Li jafnir að 72 holum loknum á 17 höggum undir pari og því þurfti að grípa til bráðabana. Í bráðabananum fékk Li skolla á 18. holu á meðan Rose fékk par og þar með var ljóst að Rose hefði varið titilinn.

Rose náði tveimur vikum í efsta sæti heimslistans eftir góðan árangur í lok september en síðan þá hafa þeir Brooks Koepka og Dustin Johnson verið í efsta sætinu. Á morgun verður Rose hins vegar kominn aftur í efsta sætið og mun hann líklega halda því í að minnsta kosti nokkrar vikur.

Adrian Otaegui og Thomas Detry enduðu í 3. sæti á 15 höggum undir pari, höggi á undan Martin Kaymer og Lucas Bjerregaard.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is