Rory McIlroy ósáttur við að karginn hafi verið sleginn á Erin Hills

Opna bandaríska meistaramótið hefst með pompi og prakt á morgun. Eins og greint var frá í gær höfðu kylfingar, þar á meðal Kevin Na, lýst yfir áhyggjum sínum af hæð og þykkt kargans á Erin Hills vellinum. Na deildi meðal annars myndbandi af því þegar boltinn hans týndist í háu grasinu, og má sjá það hér.

Mótshaldarar virðast hafa brugðist við þessum áhyggjum og slógu grasið í gær á fjórum holum vallarins, þeirri 4., 12., 14. og 18. Aldrei verða allir sáttir og hefur Rory McIlroy nú lýst yfir óánægju sinni yfir að grasið hafi verið slegið.

McIlroy er þeirrar skoðunar að brautirnar á Erin Hills vellinum séu nógu breiðar til þess að áhættan á að slá í kargann sé sanngjörn. Hann er einnig á því máli að geti kylfingur ekki slegið boltann án þess að lenda í karganum, eigi hann ekkert erindi á þessu risamóti.

„Þú ert með 156 bestu kylfinga í heimi hérna. Ef við getum ekki hitt innan þessa svæðis þá gætum við alveg eins pakkað saman og farið heim. Það eru 60 jardar [innskot blaðam.: 55 metrar] á milli vinstri og hægri hliða brautanna. Þetta eru breiðustu brautir sem við höfum spilað á Opna bandaríska".

Jordan Spieth var sammála McIlroy og kvaðst hissa á því að karginn hafi verið sleginn. Hann var einnig á sama máli um að kylfingar ættu að hafa getuna til þess að slá á braut:

„Ég tel ekki að golfvöllurinn sé ósanngjarn. Við höfum nógu breitt svæði til að slá á og þú verður að geta drævað vel til að vinna Opna bandaríska. Ég held að það sé sanngjarnt að segja það".

Jordan Spieth var sammála Rory McIlroy.