Rory McIlroy með háleit markmið fyrir árið 2018

Norður-Írinn Rory McIlroy hefur verið frá keppnisgolfi undanfarna mánuði vegna meiðsla sem höfðu hrjáð kylfinginn knáa í langan tíma. Hann snýr hins vegar aftur á Evrópumótaröðina um helgina þegar Abu Dhabi meistaramótið fer fram.

Frá því að McIlroy lék síðast keppnisgolf hefur hann hrapað úr 6. sæti heimslistans niður í það ellefta. Honum virðist þó vera nokkuð sama um þá staðreynd.

„Mér er sama um heimslistann. Ég þarf ekki að bera mig saman við neinn annan því ég veit hvað ég get gert. Kannski hefði ég hugsað meira um þetta hérna áður fyrr, en mér líður ekki þannig núna,“ sagði McIlroy og bætti við að hann óttaðist ekki samkeppnina.

„Ég er ekki hræddur við neinn þeirra. Ég hef unnið þá alla áður.“

McIlroy fór í gegnum árið 2017 án þess að sigra á atvinnumóti og var það í fyrsta skiptið frá árinu 2008 sem það gerist. Hann er staðráðinn í að bæta upp fyrir það á komandi tímabili.

„Ég þarf að komast aftur á sigurbrautina. Markmiðið mitt fyrir þetta tímabil er að bæta risatitli í safnið, komast í efsta sæti heimslistans og sigra oftar en allir aðrir.“

Hinn 28 ára gamli McIlroy er einn fjölmargra sterkra kylfinga sem taka þátt á Abu Dhabi meistaramótinu dagana 18.-21. janúar. Tommy Fleetwood, sem sigraði á mótinu í fyrra mætir til leiks auk þeirra Dustin Johnson, Justin Rose, Henrik Stenson, Paul Casey og Matt Kuchar sem allir eru skráðir til leiks.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is