Rory McIlroy ánægður með fyrsta keppnishring sinn í yfir 100 daga

Rory McIlroy lék sinn fyrsta keppnishring í yfir 100 daga í nótt þegar fyrstu hringur Abu Dhabi HSBC Championship mótsins var leikinn. McIlory kom í hús á 69 höggum og er eftir daginn jafn í 17. sæti.

Á hringnum fékk Rory þrjá fugla og restina pör. Það tók smá tíma fyrir hann að fá fyrsta fuglinn, en allir fuglarnir komu á síðustu sjö holunum. Eftir hringinn sagðist Rory vera ánægður með hringinn, en þetta hafi verið aðeins öðruvísi hringur en venjulega.

„Þetta var gott,“ sagði McIlroy. „Ég vissi við hverju var að búast úti á velli, en á sama tíma veit maður aldrei. Það eru yfir 100 dagar síðan ég keppti síðast, þannig að þetta var aðeins öðruvísi. En ég stóð mig vel.“

Hann sagði einnig eftir hringinn að hann hefði þurft að vera þolinmóður, sérstaklega þar sem að hann átti marga möguleika á fuglum.

„Ég var þolinmóður. Ég byrjaði daginn á 11 pörum og var að koma mér í góð færi, þess vegna þurfti ég að vera mjög þolinmóður. Það var því mjög gott að fá þessa þrjá fugla í lokin og komast undir 70 höggin.“