Rory McIlory tekur þátt á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu í fyrsta skipti

Rory McIlroy mætir til leiks um helgina á PGA mótaröðinni í fyrsta skipti á þessu tímabili. Hann er búinn að spila á tveimur mótum á þessu ári og voru þau bæði á Evrópumótaröðinni.

Þetta verður einnig í fyrsta skipti sem McIlroy verður á meðal þátttakenda í AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu. Það er því ekki slæmt að spila með fyrrum sigurvegara mótsins, Phil Mickelson, en þeir munu leika saman fyrstu þrjá dagana. McIlroy mun leik með föður sínum, en allir kylfingarnir leika með einum áhugamanni.

Önnur holl sem verður áhugavert að fylgjast með er holl Jordan Spieth og Dustin Johnson. Spieth stóð uppi sem sigurvegari á þessu móti í fyrra og Johnson vann árið 2009 og 2010. Meðalskor Spieth í mótinu er 68,8 högg og er það besta meðalskor kylfings sem hefur spilað fleiri en 10 hringi síðustu 30 árin. Johnson fylgir fast á hæla honum og er meðalskorið hans 69,3 sem er næst besta meðalskorið.