Rory ætlar sér titilinn

Norður-Írinn Rory McIlroy er mættur til Suður-Afríku þar sem mót helgarinnar á Evrópumótaröð karla fer fram. Fyrir mótið er McIlroy í 8. sæti stigalistans og þarf helst að vinna tvö síðustu mót tímabilsins til þess að eiga möguleika á stigameistaratitlinum í fjórða skiptið á ferlinum.

McIlroy er staðráðinn í því að veita Molinari samkeppni á lokasprettinum en sá síðarnefndi er með ágæta forystu á toppi stigalistans.

„Ég er kominn hingað með það að markmiði að spila í lokahollinu með Frankie [Francesco Molinari] á fimmtudaginn í næstu viku [þegar lokamót tímabilsins fer fram]. Það væri góð byrjun,“ sagði McIlroy.

„Ég ætla ekki að fara fram úr mér en ef ég næ að koma mér upp um nokkur sæti á listanum þessa vikuna þá yrði það stórt skref í átt að stóra markmiðinu. Ég þarf að spila mjög gott golf næstu tvær vikurnar en við sjáum hvað gerist núna.

Mér líður vel yfir leiknum mínum. Ég spilaði ekki nógu vel í Kína en hef haft smá tíma til að horfa á hvað fór úrskeiðis. Vonandi get ég byrjað vel um helgina.“

Nedbank Challenge mótið hefst á fimmtudaginn á Gary Player vellinum í Suður-Afríku. Margir af bestu kylfingum heims eru skráðir til leiks en auk McIlroy verða þeir Sergio Garcia, Kirdadech Aphibarnrat, Louis Oosthuizen, Haotong Li og Matt Fitzpatrick meðal keppenda. Heimamaðurinn Branden Grace er einnig skráður til leiks en hann hefur titil að verja í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is