Rory ætlar sér sigur um helgina

Næst efsti kylfingur heimslistans, Rory McIlroy, er mættur til Suður-Afríku þar sem fyrsta mót ársins á Evrópumótaröðinni, BMW SA Open, fer fram.

McIlroy ætlar sér stóra hluti um helgina.

„Síðustu vikur hafa verið góðar. Viku fyrir jól æfði ég í Dubai áður en ég tók mér viku frí frá golfi. Síðustu daga hef ég svo verið að æfa vel í Dubai.

Ég er ekki bara kominn hingað til þess að njóta mín í Suður-Afríku, ég ætla að spila vel og ná upp sjálfstraustinu svona í byrjun árs.

Dagurinn í dag fór í að læra betur á völlinn, vita hvert á að slá og hvaða kylfur ég þarf að nota. Mér leið vel á hringnum. Á morgun mæti ég aftur og spila kannski 9 holur. Ég mun líka ná góðri æfingu þannig ég verð klár í slaginn á fimmtudaginn.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is