Rickie Fowler fer ótroðnar slóðir í klæðaburði á Havaí

Rickie Fowler var mættur til leiks í gær þegar fyrsta mót ársins á PGA mótaröðinni fór fram, Sentry Tournament of Champions. Mótið fer fram á Maui, einni af eyjum Havaí, og má með sanni segja að Fowler hafi lifað sig inn í Havaí stemninguna. Hann mætti til leiks klæddur í skrautlegri skyrtu og var ógirtur, sem þykir nú oft ekki alveg við hæfi á golfvellinum.

Menn voru því ekki alveg á eitt sammála um hvort að klæðaburður Fowler væri við hæfi, en maður sem var nýlega kosinn kurteisasti maðurinn, veit alveg hvernig á að fá smá athygli. Ekki skemmir fyrir að hann fékk tvo fugla og einn örn á síðustu fimm holunum og situr hann jafn í fjórða sætinu á fjórum höggum undir pari.