Rekstur Golfsambandsins blómstrar eftir frábært ár

Samkvæmt ársskýrslu stjórnar GSÍ og ársreikningum er besta ár golfhreyfingarinnar frá upphafi að líða undir lok. Eftir að stöðnun varð í fjölgun kylfinga undanfarin ár er aftur orðin aukning á íslenskum kylfingum og eru nú skráðir kylfingar 17.024 talsins. Til samanburðar eru um 23.000 skráðir iðkendur innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir smávægilegum hagnaði á árinu en árangurinn fór langt fram úr væntingum. Heildarvelta á árinu var 187 milljónir króna, samanborið við 182 milljónir síðasta árs (3%), og var hangaður sambandsins á árinu tæpar 15 milljónir.  

Árangurinn má rekja til fjölgunar félagsmanna í hreyfingunni, mikillar vinnu við öflun nýrra samstarfsaðila og töluverðs aðhalds í rekstri sambandsins.

Eins og undanfarin ár var Eimskipafélag Íslands helsti bakhjarl sambandsins í tengslum við mótahald þeirra bestu. Aðrir megin samstarfsaðilar sambandsins eru Ölgerðin, Síminn, Borgun, Securitas, Bernhard, Nýherji, KPMG, Vörður, Icelandair, Altis, Margt Smátt, Áberandi og Íslensk-Ameríska.

Hérna má nálgast ársreikninginn sem var samþykktur á golfþingi 2017.