Reglubreytingar: Áhorfendur geta ekki lengur hringt inn og bent á meint brot

Nú í morgun tilkynntu USGA (bandaríska golfsambandið) og R&A að ákveðið hefði verið að taka fyrir það að leyfa áhorfendum heima í stofu að hringja inn og benda á meint brot kylfinga. Þessi regla mun taka gildi frá og með 1. janúar árið 2018.

Mikil umræða hefur verið um það að leyfa áhorfendum að hringja inn, sérstaklega eftir það sem gerðist á ANA Invitational mótinu nú fyrr á þessu ári.

Þá var Lexi Thompson með tveggja högga forystu á lokadeginum þegar að ábending kom frá áhorfenda um að hún hefði hugsanlega brotið reglu á þriðja degi mótsins. Atvikið var skoðað og voru dæmd fjögur vítishögg á Thompson. Tvö voru fyrir brot á reglu og tvö voru fyrir að skrifa undir rangt skor. Á einu augnabliki fór Thompson frá því að vera með tveggja högga forystu í það að vera tveimur höggum á eftir.

Henni tókst, þrátt fyrir mikið mótlæti, að komast aftur í efsta sætið, en endaði samt með að tapa í bráðabana. Það kom því ekki á óvart að Thompson birti færslu á samfélagsmiðlum sínum eftir tilkynninguna um breytinguna og segist hún var mjög ánægð með breytinguna og sérstaklega ánægð að vita það að enginn þarf að lenda í því sem hún lenti í.

Til að koma í veg fyrir að brot fari framhjá mótaröðinni verður ráðið fólk sem mun grand skoða alla útsendinguna og tilkynna um brot ef þau eiga sér stað.