Reed fékk um 200 milljónir fyrir sigurinn

Það hefur löngum verið vitað að sigurvegari golfmóta fær gífurlegar fjárhæðir að launum. Fyrir það að vinna venjulegt PGA mót hlýtur kylfingur að launum rétt rúmlega 1 milljón dollara, eða rétt um 100 milljónir íslenskra króna. Það er aftur á móti aðeins annað upp á teningnum þegar að um risamót er að ræða. 

Patrick Reed sigraði fyrsta risamót ársins á sunnudaginn og hlaut hann að launum $1.980.000, sem samsvarar rétt um 200 milljónum íslenskra króna. Það er vert að nefna að Rickie Fowler, sem endaði einn í öðru sæti, fékk tæplega 120 milljónir. 

Verðlaunafé hefur hækkað mikið undanfarna áratugi og til gamans má geta að árið 1998 fékk sigurvegarinn tæplega $600.000 og hefur því verðlaunafé meira en þrefaldast á síðustu 20 árum.

Masters mótið hefur þá venju að gefa út verðlaun fyrir ýmislegt annað en lokastöðuna. Allir kylfingar sem fá örn í mótinu fá til að mynda kristal glös og kylfingarnir sem eiga lægsta skor hvern dag fá að launum kristal vasa.