Rahm um sigurinn gegn Woods: Mikilvægasta stund ferilsins

Spánverjinn Jon Rahm var skiljanlega sáttur eftir sigurinn á Hero World Challenge mótinu sem fór fram á Bahama eyjum um helgina.

Rahm lék hringina fjóra á 20 höggum undir pari og lék nánast óaðfinnanlegt golf á lokahringnum.

„Slátturinn er næstum eins og ég vil hafa hann,“ sagði Rahm eftir lokahring mótsins. „Þetta var nánast fullkomið í dag. Ég spilaði stöðugt golf frá teig að flöt og gerði fá mistök. Ef þú nýtir þér par 5 holurnar og stuttu par 4 holurnar, líkt og ég gerði, þá áttu góðan möguleika.“

Rahm fékk bikarinn afhentan eftir hring frá Tiger Woods en hann var gestgjafi mótsins. Þetta er í annað skiptið á árinu sem Rahm slær í gegn í nærveru Woods en þeir mættust sömuleiðis á sunnudeginum í Ryder bikarnum þar sem Spánverjinn ungi hafði betur. Rahm telur þann sigur stærri en alla aðra.

„Sunnudagurinn með Tiger er enn tilfinningaríkasta og mikilvægasta stund golfferilsins míns. Ég byrjaði nánast að gráta þegar ég tók í höndina á honum því þetta hafði svo mikla þýðingu. Að vinna mótið hans nokkrum mánuðum seinna er mjög sérstakt.“

Eftir sigurinn um helgina er Rahm kominn upp í 6. sæti heimslistans en þetta var þriðji sigurinn hans á árinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is