Rahm stefnir á sigur í heimalandinu

Spánverjinn Jon Rahm er meðal keppenda á Opna spænska mótinu sem fer fram á Centro Nacional de Golf vellinum á Evrópumótaröð karla um helgina.

Rahm, sem situr í fjórða sæti heimslistans, hefur ekki enn sigrað í heimalandi sínu sem atvinnukylfingur en hann náði frábærum árangri sem áhugakylfingur.

„Ég er mjög stoltur að geta sagt að ég hafi orðið spænskur landsmeistari í 16, 18 og 21 árs flokki. Ég held að ég hafi unnið fjóra eða fimm flokka og suma oftar en einu sinni. Ég er mjög stoltur af þeim árangri.

Að vera hluti af Opna spænska mótinu vitandi um allar spænsku goðsagnirnar sem hafa unnið hérna... Ég myndi elska það að bæta nafninu mínu við bikarinn.“

Birgir Leifur Hafþórsson var skráður til leiks í mótið en komst ekki inn. Hann var fyrsti maður á biðlista en nú er nánast ljóst að hann verður ekki meðal keppenda enda eru rástímar fyrir mótið klárir.

Hér er hægt að sjá keppendalista Opna spænska mótsins.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is