Rahm sigraði á Opna spænska meistaramótinu

Spánverjinn Jon Rahm stóð uppi sem sigurvegari á Opna spænska meistaramótinu sem fór fram um helgina á Evrópumótaröð karla í golfi.

Rahm lék hringina fjóra á 20 höggum undir pari og lék frábært golf á lokahringnum þegar mest lá undir.

Paul Dunne, sem leiddi eftir þrjá hringi, náði ekki að fylgja eftir magnaðri spilamennsku og endaði tveimur höggum á eftir Rahm í öðru sæti. Höggi á eftir honum varð svo heimamaðurinn Nacho Elvira.

George Coetzee lék besta hring dagsins. Hann fékk alls sjö fugla og einn örn og kom inn á 9 höggum undir pari. Fyrir vikið fór hann upp um 31 sæti og endaði í 4. sæti í mótinu.

Jon Rahm hefur nú sigrað á fimm mótum á Evrópu- og PGA mótaröðinni en hans fyrsti sigur kom á Farmers Insurance mótinu í janúar árið 2017. Magnaður árangur hjá Spánverjanum unga sem er einungis 23 ára gamall.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Sigrar Rahm á sterkustu mótaröðum heims:

Farmers Insurance Open, 29. janúar 2017 (PGA mótaröðin)
Opna írska mótið, 9. júlí 2017 (Evrópumótaröðin)
DP World Tour Championship, 19. nóvember 2017 (Evrópumótaröðin)
CareerBuilder Challenge, 21. janúar 2018 (PGA mótaröðin)
Opna spænska meistaramótið, 15. apríl 2018 (Evrópumótaröðin)

Ísak Jasonarson
isak@vf.is