Queens bikarinn: Ólafía Þórunn tapaði eftir spennandi leik

Queens bikarinn er nú leikinn í þriðja skiptið, en mótið er keppni milli úrvalsliðs Evrópumótaraðarinnar, Japans, Kóreu og Ástralíu. Japanska liðið sigraði keppnina árið 2015 og var það svo Kórea sem sigraði í fyrra. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, er á meðal keppenda og leikur að sjálfsögðu fyrir lið Evrópu.

Ólafía lék tvímenning í dag og var mótherji hennar í dag hin ástralska Sarah Kemp. Leikurinn var mjög spennandi lengst af. Ólafía byrjaði betur, en hún vann fyrstu holuna. Sarah komst svo yfir í leiknum á fimmtu holu. Tvisvar sinnum náði Ólafía að jafna leikinn á holum níu og 11. Sarah náði þó alltaf að komast yfir og komst tvær holur upp á 15. holunni. 

Það bil náði Ólafía ekki að brúa og endaði leikurinn á 17. holu, en Sarah sigraði 2&1.

Eftir daginn er það lið Kóreu sem er með afgerandi forystu, en þær eru með samtals 24 stig. Í öðru sæti er japanska liðið með 12 stig, ástralska liðið er með 9 stig og það evrópska rekur lestina með 7 stig. 

Loka umferð mótsins fer fram á morgun, en öll úrslit má nálgast hérna.