Pútterinn að valda Johnson og Spieth erfiðleikum

Fyrsti hringur Opna bandaríska meistaramótsins fór fram í gær og voru kylfingar almennt að skila inn mjög góðu skori. Aðra sögu er þó að segja um nokkra af efstu kylfingum heimslistans. Dustin Johnson, efsti maður heimslistans, kom í hús á þremur höggum yfir pari og Rory McIlroy, sem situr í öðru sæti heimslistans, lék á sex höggum yfir pari. Jordan Spieth, sem situr í 5. sæti heimslistans, náði sér heldur ekki á strik, en hann lék á einu höggi yfir pari. 

Spieth byrjaði vel, en hann fékk fugl á 11. holunni, sem var önnur hola dagsins hjá honum. Hann var einnig að slá mjög vel, en hann hitti 13 af 14 brautum, einni meira en Rickie Fowler, sem situr í efsta sæti eftir sögulegan hring. Hann hitti einnig 14 af 18 flötum í tilskyldum högga fjölda. 

Spieth átti 15 fuglafæri á hringnum í gær en náði einungis að nýta sér eitt af þeim. Hann missti öll púttin sem voru í 3-6 metrum og tvö til viðbótar sem voru innan 3 metra.

Það er því ljóst að pútterinn var að valda Spieth erfiðleikum, en nýlega skipti hann út pútternum sínum í einu móti. Hann var þó fljótur að skipta aftur til baka og náði 2. sæti á Dean & Deluca mótinu sem leikið var helgina eftir.

Sömu sögu er að segja um Dustin Johnson, en hann lék í sama holli og Spieth í gær. Johnson var ekki að dræva alveg eins vel og Spieth, en hitti þó 9 af 14 brautum og 11 af 18 flötum í tilskyldum höggafjölda. Hann þrípúttaði hins vegar þrisvar sinnum á hringnum, missti öll pútt sem voru í 3-6 metrum og missti þrjú af sex púttum sem voru í 1.5-3 metrum.

Það er vonandi að þeir félagar nái pútternum heitum á morgun, en þeir þurfa á góðum hring að halda, ætli þeir sér að komast í toppbaráttuna.

Það var ekki dræverinn sem var að valda Jordan Spieth erfiðleikum í gær.