Player ósáttur: Sorglegt að sjá menn valta yfir Old Course

Fjölmargir kylfingar léku langt undir 70 höggum á lokahringnum á Alfred Dunhill Links Championship mótinu sem fór fram um helgina á Evrópumótaröðinni. Lokahringur mótsins fór fram á hinum sögufræga golfvelli, Old Course, í St. Andrews.

Ross Fisher var einn þeirra sem lék vel en hann lék á 61 höggi, 11 höggum undir pari, og setti nýtt og glæsilegt vallarmet. Auk Fisher léku til að mynda Victor Dubuisson (63 högg), Oliver Fisher (65 högg) og Eddie Pepperell (65 högg) allir á mjög lágu skori og hefur goðsögnin Gary Player áhyggjur af þróuninni í golfheiminum.

„Á sama tíma og ég samgleðst keppendum finnst mér sorglegt að sjá menn valta yfir Old Course á St. Andrews með nútíma tækni, bæði í golfbolta og kylfum,“ sagði hinn 81 árs gamli á Twitter síðu sinni.

Player var greinilega ekki sá eini með þessa skoðun því fjölmargir svöruðu tístinu hans og skiptust á skoðunum. Þrátt fyrir þá umræðu verður það ekki af Ross Fisher tekið að hann lék hreint út sagt magnað golf á sunnudaginn.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is