Pieters þykir holukeppni skemmtilegri en höggleikur

Á blaðamannafundi fyrir EurAsia bikarinn sem fer fram dagana 12.-14. janúar í Malasíu talaði Belginn Thomas Pieters um að hann yrði stundum þreyttur á höggleiks fyrirkomulaginu.

„Mér finnst holukeppni mun skemmtilegri,“ sagði Pieters. „Ég verð spenntur á fyrsta teig vegna þess að maður er mættur til að keppa við einungis einn kylfing og þig langar að rústa honum.

Augljóslega elska ég að spila í risamótum og í stórum mótum en stundum verð ég þreyttur á höggleik. Þess vegna er ég spenntur fyrir helginni.“

EurAsia bikarinn er leikinn með svipuðu fyrirkomulagi og Ryder bikarinn en úrvalslið Evrópu mætir þar úrvalsliði Asíu. Pieters er einn 12 kylfinga sem leikur fyrir hönd Evrópu en Thomas Björn er fyrirliði liðsins.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is