PGA: Woods lék fyrsta hringinn á parinu

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hóf í gær leik á Players meistaramótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni í golfi. Leikið er á hinum sögufræga TPC Sawgrass velli.

Woods lék fyrsta hringinn á pari vallarins og er hann fyrir vikið jafn í 69. sæti af 144 keppendum sem hófu leik á fimmtudaginn.

Á hringnum fékk Woods alls tvo fugla og einn örn en hann missteig sig nokkrum sinnum á hringnum og endaði með fjóra skolla.

Woods var í holli með þeim Phil Mickelson og Rickie Fowler á fyrsta hringnum og var bestur í hollinu. Fowler kom inn á tveimur höggum yfir pari og Mickelson náði sér ekki á strik og kom inn á 7 höggum yfir pari.

Annar hringur mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is