PGA: Tveir jafnir á toppnum eftir annan hring

Annar hringur á Arnold Palmer Invitational mótinu, sem er hluti af PGA mótaröðinni, fór fram í Flórída í dag. Fyrir daginn var það Svíinn Henrik Stenson sem var í efsta sæti á 8 höggum undir pari. Hann lék ekki alveg eins vel í dag en er þó enn á toppnum á samtals 11 höggum undir pari. Með honum á toppnum er Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau.

DeChambeau lék hringinn í dag á sex höggum undir pari og er því líkt og Stenson á samtals 11 höggum undir pari. Hann fékk einn örn, sex fugla og tvo skolla á hringnum í dag. Stenson átti aðeins viðburðaminni hring en hann fékk þrjá fugla og restin pör í dag.

Í þriðja sæti er Bandaríkjamaðurinn Talor Gooch og er hann á samtals 9 höggum undir pari. Tiger Woods er á meðal þátttakenda en hann lék hringinn í dag á parinu og er jafn í 17. sæti á samtals 4 höggum undir pari.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.