PGA: Thomas á tveimur höggum undir pari í titilvörninni

Fyrsti hringur CIMB Classic mótsins fór fram í nótt en leikið er í Kuala Lumpur. Justin Thomas, sem hefur sigrað á mótinu tvö ár í röð, lék fyrsta hringinn á tveimur höggum undir pari og er jafn í 23. sæti af 78 keppendum. Cameron Smith lék best allra á fyrsta hringnum og er í forystu.

Thomas, sem var valinn kylfingur ársins á PGA mótaröðinni á dögunum, náði sér aldrei almennilega á strik á hringnum en lék engu að síður á tveimur höggum undir pari og verður líklega í baráttunni um helgina.

Cameron Smith lék fyrsta hringinn á 8 höggum undir pari og er með eins höggs forystu á næstu kylfinga. Smith lék óaðfinnanlegt golf og tapaði ekki höggi á hringnum.

Xander Schauffele, Poom Saksansin og Keegan Bradley deila öðru sætinu á sjö höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is