PGA: Ted Potter sigraði á AT&T Pebble Beach Pro/Am

Bandaríkjamaðurinn Ted Potter Jr. kom, sá og sigraði á móti helgarinnar á PGA mótaröðinni, AT&T Pebble Beach Pro/Am. Potter lék hringina fjóra á 17 höggum undir pari og sigraði með 3 högga mun.

Potter lék virkilega stöðugt golf á lokahringnum og tapaði ekki höggi eftir fyrstu holu dagsins. Eftir fjóra fugla á fyrri níu níu fékk Potter par á öllum seinni níu holunum og fagnaði sigri í annað skiptið á ferlinum á PGA mótaröðinni.

Ástralinn Jason Day og Bandaríkjamennirnir Phil Mickelson, Chez Reavie og Dustin Johnson deildu öðru sætinu á 14 höggum undir pari. Johnson leiddi mótið ásamt Potter eftir þrjá hringi en náði ekki að sýna sitt rétta andlit á lokahringnum.

Sigurvegari síðasta árs, Jordan Spieth, endaði í 20. sæti á 8 höggum undir pari. Hann lék lokahringinn á höggi undir pari og náði aldrei að koma sér almennilega í toppbaráttuna.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is